Stefna og leiðarljós skólans

Stefna Setbergsskóla

Setbergsskóli starfar eftir lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á aukið sjálfstæði skóla, meiri sveigjanleika í skipulagi náms og kennslu, áhersla lögð á einstaklingsmiðaða kennslu og samfellu í námi á milli skólastiga. Þessar breytingar taka mið af þróun á skólastarfi á undanförnum árum eins og grunnskólalög og aðalnámskrá bera með sér. Einnig tekur allt skólastarfið og stefnumótun mið af skólastefnu Hafnarfjarðar sem samþykkt var í bæjarráði árið 2009 en er nú til endurskoðunar.

Áherslur í skólastarfinu eru aukinn sveigjanleiki í námi, margbreytilegar kennsluaðferðir, endurskoðun námsmats með áherslu á leiðsagnarnám og endurspeglun á hæfileikum og getu hvers nemanda. Skólasamfélag sem eflir skapandi og sjálfstæða hugsun, fjölbreytt læsi og hæfni til samskipta í heimi fjölbreytni og breytinga þar sem hver og einn fær tækifæri til að þroskast og dafna.

Framtíðarsýn Setbergsskóla ákvörðuð á skólaþingi 2018 -2019

Um árabil hefur Setbergsskóli verið forystuskóli í læsi og námsvitund þar sem áhersla er lögð á læsi í víðum skilningi. Með því að vinna með námsvitund er lögð áhersla á að hver og einn geri sér grein fyrir hvaða aðferðir henti til náms.

Leitað var til allra sem koma að skólasamfélaginu við endurskoðun skólastefnu og leiðarljósa Setbergsskóla en skólinn setti sér fyrst leiðarljós skólaárið 2005 – 2006 og voru þau virðing, víðsýni og vinsemd. Í tilefni af 30 ára afmælis skólans veturinn 2018 – 2019 var haldið skólaþing. Eitt af verkenum þess var að endurskoða leiðarljós skólans og skólareglur. Í ljósi þeirra gagna sem urðu til eftir skólaþingið var ákveðið að vellíðan yrði eitt af leiðarljósum skólans og kæmi í stað vinsemdar. Lögð er áhersla á að skólastarfið endurspegli þessi leiðarljós. Skólaárið 2019 – 2020 var síðan farið í endurskoðun á skólareglum.

Leiðarljós Setbergsskóla, eru eftirfarandi:

  • Virðing: Við berum virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum, skólanum okkar, landinu, náttúrunni og umhverfinu.
  • Víðsýni: Við erum forvitin og fróðleiksfús og leitum okkur upplýsinga á gagnrýnin hátt. Við sýnum umburðarlyndi gagnvart fólki, hugmyndum og samfélögum.
  • Vellíðan: Við stuðlum að vellíðan með því að vera jákvæð og vingjarnleg, tala og vinna saman, hrósa hvert öðru, sýna umhyggju, vera hugrökk, setja og virða mörk og huga að heilbrigði okkar.

VIRÐING  - VÍÐSÝNI - VELLÍÐAN

Uppfært: 08.10.2020

Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is