Gagnvirkur lestur

Góð lestrarkunnátta er hverjum manni nauðsynleg. Til viðbótar góðri lestrartækni þarf lesskilningur að vera góður. Kennarar eru í auknum mæli að kenna nemendum aðferðir sem miða að auknum skilningi á texta.

Ýmsar aðferðir eru til sem þykja líklegar til að efla lesskilning. Ein þeirra er nefnd gagnvirkur lestur (reciprocal teaching). Þegar nemendur beita aðferðinni rifja þeir upp nýlesinn texta, búa til spurningar úr honum, skýra út orð og orðasambönd og spá fyrir um áframhaldandi innihald textans. Þegar nemendur hafa lært að beita aðferðinni eru þeir hvattir til að nota hana við heimanám og undirbúning fyrir próf. Þar sem gagnvirkur lestur hefur verið tekinn upp hafa foreldrar verið hvattir til að kynna sér aðferðina til að geta stutt börn sín. Aðferðin er í senn einföld og áhrifarík sem tæki til náms.

Yfirlit yfir gagnvirkan lestur:
Fjöldi nemenda í hópi; 2-4. Nemendur skiptast á um að vera stjórnendur.

Forstig: Lestur
Stjórnandi afmarkar stutta efnisgrein úr textanum. Hann les efnisgreinina upphátt, en aðrir í hópnum fylgjast með textanum í hljóði.
Athugið að aðeins ein efnisgrein er lesin í einu.

1. þrep: Samantekt
Stjórnandi tekur saman meginefni textans og segir frá því í stuttu máli. Aðrir í hópnum geta bætt við samantektina ef þeim finnst eitthvað hafa gleymst. Mikilvægt er að halda sig við aðalatriðin, en sleppa smáatriðum.

2. þrep: Spurninga spurt
Stjórnandi spyr einnar eða fleiri spurninga sem hann mikilvægar út frá efni textans.
Ekki er ætlast til að spurningarnar séu skrifaðar niður.

3. þrep: Útskýringar
Stjórnandi athugar hvort eitthvað í efnisgreininni sé óljóst eða þarfnist frekari útskýringa. Hér getur verið um að ræða orðskýringar eða skýringar á flóknari orðasamböndum. Þessu stigi er sleppt ef nemendum finnst allt vera skýrt og auðskilið.

4. þrep: Forspá
Stjórnandi spáir fyrir um innihald textans sem á að lesa næst, t.d. næstu efnisgrein. Hér geta aðrir einnig lagt fram sínar hugmyndir og rætt þær.

Næsti hringur: Endurtekning ferils
Nýr aðili tekur við stjórninni og ferlið er endurtekið þar til lokið er við að lesa það efni sem ætlunin er að fara yfir.

Það sem gerir þessa aðferð sérstaka er að hún er unnin út frá niðurstöðum rannsókna um nám og kennslu (Carter:1997, Anna Guðmundóttir:2002). Höfundar aðferðarinnar nýttu sér vitneskju um þá tækni sem góðir lesarar beita við lestur sem og þau atriði sem virðast hindra slaka lesara í að ná góðum lesskilningi.


Gagnvirkur lestur - glærur

Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is