Heimanám

Heimanám er einn þáttur í daglegu lífi skólabarna þar sem foreldrar/forráðamenn fá tækifæri til að fylgjast með námi barna sinna (samskiptatæki) og styðja við bakið á þeim (stuðningur, skipulag, hvatning, námstækni, ábyrgð). Þar sem vel hefur tekist til með heimanám hafa rannsóknir sýnt að það getur haft jákvæð áhrif á persónuþroska og námsárangur og því er mikilvægt að góð samvinna ríki á milli heimilis og skóla.

Markmið með heimanámi er:

 • að nemendur þjálfi enn frekar og rifji upp það sem kennt hefur verið í skólanum
 • að nemendur þrói með sér góða námstækni/námsvitund og verði sjálfstæðir í vinnubrögðum
 • að nemendur öðlist smátt og smátt færni í að undirbúa sig fyrir skólann
 • að veita foreldrum/forráðamönnum tækifæri til að taka þátt og fylgjast með námi barna sinna

Heimalestur

Til að ná góðum árangri í lestri er mjög mikilvægt að barnið lesi upphátt heima alla virka daga (raddlestur). Við upphaf lestrarnáms er góð regla að lesa hverja blaðsíðu að minnsta kosti tvisvar sinnum. Slík þjálfun gefur barninu aukna færni í lestri orðmynda, auk þess sem lesturinn verður oftast þjálli þegar sami texti er lesinn öðru sinni. Lesið er í áheyrn fullorðins og kvittað er fyrir áheyrn í þar til gerð kvittanahefti. Áhersla er lögð á að nemendur fái efni við hæfi svo að lesturinn verði sem ánægjulegastur.

Foreldrar eru hvattir til að lesa áfram upphátt fyrir börn sín, jafnvel þó þau séu sjálf farin að lesa. Flest börn ráða einungis við mjög léttan texta í byrjun, en hafa þörf fyrir að vinna með flóknari texta sem fellur betur að þroska þeirra og áhuga. Lestur foreldra og umfjöllun um textann, eykur orðaforða barnanna og bætir málþroska, en góður málþroski er einmitt einn af grunnþáttum alls náms.

Vikuáætlanir

 • Heimanám nemenda hefst fljótlega við upphaf skólans
 • Í desember verður ekki sent heimanám hjá 1. – 7. bekk að undanskyldum heimalestri
 • Eftir miðjan desember verður ekki heimanám hjá 8. – 10. bekk
 • Heimanám hefst á ný í byrjun janúar
 • Heimanámi og/eða undirbúningi fyrir próf lýkur seinnipartinn í maí hjá 1. – 10. bekk
 • Heimanám fellur niður alla þemadaga
 • Ekkert heimanám er í vetrar-, páska- og jólafríum

Áætlaður tími sem fer í heimanám

Það fer eftir aldri hve nemendur geta einbeitt sér lengi í einu og einnig er það
einstaklingsbundið. Ef foreldrum/forráðamönnum finnst fara óeðlilega mikill tími í
heimanám þá er mjög mikilvægt að ræða málin strax við kennara og leita lausna.

Heimavinna ætti ekki að taka lengri tíma en eftirfarandi viðmið segja til um:

 • 1.- 2. bekkur 10 – 15 mínútur að meðaltali á dag
 • 3. – 4. bekkur 15 – 20 mínútur að meðaltali á dag
 • 5. – 6. bekkur 30 – 40 mínútur að meðaltali á dag
 • 7. bekkur 40 – 50 mínútur að meðaltali á dag
 • 8. – 10. bekkur 6 klukkustundir að meðaltali á viku

Hlutverk kennara, nemenda og foreldra

Kennarar

 • Setja fyrir og hafa eftirlit með heimavinnu.

Nemendur

 • Ljúka við heimavinnuna á tilsettum tíma.
 • Leggja sig jafnvel fram við heimavinnu og aðra skólavinnu hvað varðar frágang og viðleitni.

Foreldrar/forráðamenn

 • Hjálpa barni sínu við að ljúka við vinnu sína á réttum tíma.
 • Hjálpa barninu til að áætla tíma til heimavinnu.
 • Styðja við bakið á barni sínu og hvetja það áfram við skólanámið.
 • Láta kennarann vita ef barnið hefur ekki náð að ljúka við heimavinnuna á réttum tíma.
 • Láta kennarann vita ef heimavinnan er ekki við hæfi nemenda (t.d. of létt eða erfið).

Nokkur atriði til viðbótar sem gott er að hafa í huga

Friður og ró

 • Yngri nemendum (reyndar líka mörgum sem eldri eru) finnst gott að vera í nálægð við einhvern fullorðinn við námið.
 • Námið hefur forgang.

Ekki of seint á kvöldin

 • Best er að taka frá fastan tíma til að sinna heimanámi.

Æfingin skapar meistarann

 • Einn tilgangurinn með heimanámi er að endurtaka efni sem þegar hefur verið farið í, það er að þjálfa betur ákveðin atriði.

Talaðu jákvætt um heimanámið

 • Mikilvægt er að líta heimanámið jákvæðum augum því jákvætt hugarfar auðveldar flest verk.
 • Forðast ber samanburð við systkini eða aðra.
 • Mjög mikilvægt er að virða hvern og einn eins og hann er. Jákvæð hvatning
  hjálpar en of mikil pressa getur skaðað.

Í viðbót var meðal annars stuðst við bækling um heimanám sem gefinn var út af Heimili
og skóla (2006) .


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is