Orð af orði

Markmið með verkefninu Orð af orði er að efla orðvitund, orðaforða, lesskilning, áhuga á málinu og lestri. Verkefnið styður við lestur, ritun, málfræði og réttritun. Það nær til alls námsefnis þar sem verið er að vinna með texta, ýmis hugtök og orð. Áhersla er á yndislestur; þar sem kennarinn les fyrir nemendur, þeir lesa saman eða hver fyrir sig.

Kennari leiðir og virkjar nemendur við orðavinnuna með sýnikennslu þar til þeir hafa öðlast færni til að vinna sjálfstætt. Við verkefnavinnuna er efniviðurinn það námsefni sem unnið er með á hverju stigi. Verkefnið byggir á sundurgreiningu þar sem orð og hugtök eru brotin niður og ýmis málfræðiatriði dregin fram. Þá er endurbirting mikilvæg þar sem orð og hugtök eru notuð. Hvetjandi námsumhverfi styður við og örvar áhuga nemenda og má segja að fjölbreytnin við að nota Orð af orði falli undir það. Unnið er með orð dagsins, orðhlutavinnu – orðapúsl, orðaforðavinnu – t.d. unnið með orð úr sögu, orðaskjóður, orðaleit, rím, orðtök og málshætti, orðakeðjur, hugtakakort, hugtakablóm og gagnvirkan lestur svo fátt eitt sé nefnt. Ýtir þessi vinna undir auknar pælingar nemenda um allskonar orð og orðnotkun sem eykur orðaforða þeirra.

Nánar er hægt að lesa um Orð af orði í þessum bæklingi frá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri http://www.naustaskoli.is/static/files/Ordafordi_baeklingur_agust_2010.pdf


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is