Lög foreldrafélags

Lög foreldrafélags Setbergsskóla


1. grein. Félagið heitir Foreldrafélag Setbergsskóla, Hafnarfirði.

2. grein. Félagar eru forráðamenn nemenda og starfsfólk skólans.

3. grein. Markmið félagsins er að vinna að heill og hamingju nemenda og starfsfólks skólans og styrkja skólann í hvívetna og efla samvinnu heimila og skóla. Markmiði sínu hyggst félagið ná með því að veita skólanum aðstoð vegna ákveðinna verkefna og starfa í skólanum, að koma á umræðufundum um skóla- og uppeldismál almennt í samráði við skólann, að koma fram með óskir um breytingar á starfi skólans, að fjalla um félagslega aðstoð barna í skólahverfinu.

4. grein. Stjórn félagsins skipa 7 menn, 4 kosnir af forráðamönnum á aðalfundi, 2 kosnir af starfsfólki skólans auk skólastjóra eða staðgengils hans. Þá skal einnig á aðalfundi kjósa 2 varamenn. Formaður skal vera úr hópi forráðamanna, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórn félagsins skal halda a.m.k. 4 fundi árlega. Hún fylgist með starfi skólans og starfsaðstöðu, undirbýr samstarf heimila og skóla, boðar fundi á skólaárinu og afgreiðir samþykktir þeirra. Öll stjórnin skal kosin til eins árs í senn. Síðan skal hún koma sér saman um að a.m.k. 1 úr hópi foreldra og 1 úr hópi kennara sitji áfram næsta skólaár, þannig að ekki verði fleiri en 4 kosnir árlega.

5. grein. Aðalfund skal halda fyrir 15. október ár hvert og skal hann boðaður með minnst hálfsmánaðar fyrirvara.

Dagskrá aðalfundar skal vera:

  • Skýrsla stjórnar um starfsemi félagsins á liðnu ári
  • Skýrsla foreldraráðs á liðnu ári
  • Gjaldkeri gerir grein fyrir fjárhagsafkomu félagsins og leggur fram endurskoðaða reikninga félagsins til samþykktar
  • Kosning stjórnar
  • Kosning fulltrúa í foreldraráð Setbergsskóla
  • Kosning skoðunarmanns
  • Lagabreytingar
  • Önnur mál

6. grein. Stjórnin skal koma á samstarfi foreldra innan árganga með skipun 2 bekkjafulltrúa úr hverri bekkjadeild. Ætlast er til að fulltrúar innan árgangs hafi með sér samstarf. Fulltrúar skulu tilnefndir eigi síðar en á fyrsta foreldradegi vetrarins.

7. grein. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og ræður einfaldur meirihluti atkvæða fundarmanna. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórninni fyrir aðalfund.

8. grein. Félagið eða stjórn þess skal ekki hafa afskipti af vandamálum, sem upp kunna að koma milli einstakra forráðamanna og starfsmanna skólans.

9. grein. Lög þessi öðlast þegar gildi.

Lögum þessum var síðast breytt á aðalfundi foreldrafélagsins þann 4. nóvember 2002.


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is