Sérkennsla og námsaðstoð

Þarfir hvers og eins eru hafðar að leiðarljósi við skipulagningu og framkvæmd stuðnings við nemendur með sérþarfir. Stuðningur við nemendur eða nemendahópa felst fyrst og fremst í sveigjanlegu og margbreytilegu námsumhverfi og kennsluháttum sem ætlað er að mæta þörfum allra nemenda (reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla, 2010). Lögð er áhersla á að nemendur fái nám við hæfi og þeim líði vel í skólanum. Allir nemendur með sérþarfir tilheyra sinni bekkjardeild þó kennsla einstakra nemenda fari að einhverju leyti fram í sérdeild, námsveri eða sérkennslustofum.

Leiðir sem farnar eru nemendum til stuðnings snúa fyrst og fremst að margbreytilegum kennsluháttum, teymiskennslu og leiðsagnarnámi. Hugað er að námsumhverfi nemenda og það aðlagað eftir þörfum bæði fyrir einstaklinga og hópa. Námsefni, námsleiðir, hæfniviðmið og fyrirkomulag mats er jafnframt aðlagað eftir því sem þarf. Þáttur foreldra þeirra barna sem þurfa aðlögun náms er mikilvægur og samstarf við heimilið er lykilþáttur í að vel takist til. Foreldrar eru upplýstir um aðlögun námsefnis á teymisfundum, hún rædd, endurskoðuð og skráð. Í þeim tilvikum þar sem nemandi víkur frá skólanámskrá í einni eða fleiri námsgreinum er unnin einstaklingsnámskrá samkvæmt stöðluðu formi frá Hafnarfjarðarbæ 2020.

Innan skólans starfa teymi og ráð sem styðja við kennara, annað fagfólk, nemendur og foreldra/forráðamenn til að vinna eftir lögum og reglum í skóla án aðgreiningar.

Til að tryggja að hlutverk allra þeirra sem að nemendum koma séu skýr og leiði til árangursríkra vinnubragða er farið eftir ákveðnum verkferlum sem fagfólki innan skólans er upplýst um. Áhersla er lögð á að umsjónarkennari/faggreinakennari grípi inn hið fyrsta hvort sem hugsanlegur vandi nemandi snýr að líðan, hegðun eða námi.

Einstaklingsbundin úrræði eru margvísleg; unnar stuðningsáætlanir, einstaklingsmiðaðar stundaskrár, einstaklingsnámskrár, samstarf við fagfólk innan sem utan skólans, samstarf við atvinnulífið, samstarf við framhaldsskóla og fleira.


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is