Lestur/læsi

Góð lestrarkunnátta er grunnurinn að öllu námi og hefur Hafnarfjarðarbær sett sér markmið um að efla læsi grunnskólanema í bænum sem samræmast markmiðum aðalnámskrár grunnskóla (2011). Markmiðið er að allir nemendur geti lesið sér til gagns og gleði við lok grunnskólagöngu. Einnig er lögð áhersla á að efla inngrip vegna nemenda sem þurfa sérstakan stuðning og draga þannig úr frávikum í lestri sem geta haft áhrif á námsframvindu, líðan og hegðun. Setbergsskóli vinnur samkvæmt þeirri stefnu sem bærinn hefur sett varðandi lestrarfærni nemenda og kallst Lestur er lífsins leikur. Hana má finna á þessari vefslóð http://innri.hafnarfjordur.is/media/form-og-skyrslur/Lestur-er-lifsins-leikur_endurskodun-2019.pdf.

Aðferðirnar sem unnið er eftir á fyrstu stigum skólans falla vel að stefnu Hafnarfjarðarbæjar varðandi bættan árangur í læsi. Þessar aðferðir kallast stýrð kennsla (Direct Instruction) og fimiþjálfun. Til viðbótar góðri lestrartækni þarf lesskilningur að vera góður og eru kennarar í auknum mæli farnir að kenna nemendum aðferðir sem miða að góðum textaskilningi. Ýmsar aðferðir eru farnar til þess og má þar nefna Gagnvirkan lestur (reciprocal teaching), Orð af orði, vinnslu hugtakakorta og PALS (Peer Assisted Learning Strategies = pör að læra saman)

Eins og fram hefur komið snýst lestur ekki einungis um að geta lesið texta heldur er líka farið að skoða lestur og læsi í víðari skilningi. Hér má sjá áherslur sem samstaða var um á skólaþingi í Setbergsskóla veturinn 2018 – 2019Mynd1 að unnið yrði að næstu þrjú skólaár. Að því loknu yrði sú vinna endurmetin.


Við mat á stöðu nemenda er tekið mið af niðurstöðum læsis- og lesskilningskannana, svo sem Leið til læsis, Lesfimi, LOGOS og Orðarún. Niðurstöðurnar ásamt umsögnum kennara og annarra sérfræðinga sem að nemanda hafa komið eru nýttar til að bæta árangur nemenda. Í sumum tilvikum er þörf á að greina nemanda nánar, til dæmis með aðkomu skólasálfræðings, talmeinafræðings, sérfræðinga frá Þroska og hegðunarstöð og Greiningar og ráðgjafastöð ríkisins. 


  


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is