Stoðkerfi

Hér má finna ýmsar upplýsingar um stoðþjónustu skólans, t.d. upplýsingar um einelti, sálfræðing skólans, heilsugæslu o.fl.

BRÚIN

Barn –- Ráðgjöf –- Úrræði

Hafnarfjarðarbær hefur frá og með haustinu 2018 farið af stað með nýtt verklag, BRÚIN, til að efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum bæjarins. Markmið BRÚARINNAR er að samþætta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra. Áhersla er lögð á að veita aukna þjónustu á fyrri stigum með aðkomu brúarteyma leik- og grunnskólanna. Ásamt því hefur samvinna fagfólks verið efld á milli fjölskyldu- og barnamálasviðs og mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.

Í Brúarteymum sitja fagaðilar á vegum skólans, ásamt ráðgjöfum frá fjölskyldu- og skólaþjónustu BRÚARINNAR, sálfræðingum og/eða sérkennslufulltrúum frá mennta- og lýðheilsusviði. Hlutverk brúarteyma er að kortleggja stöðu barns og leita sameiginlegra lausna, barni og fjölskyldu þess til stuðnings. Í brúarteymi er nám, hegðun, þroski og/eða líðan barns rædd með samþykki foreldra og viðunandi úrræði virkjuð til að bregðast fyrr við erfiðleikum eða aðstæðum barnsins.

Í byrjun var verklag BRÚARINNAR innleitt í sjö leikskóla og þrjá grunnskóla. Haustið 2019 bættust við fjórir leikskólar og tveir grunnskólar. Skólaárið 2020-2021 munu allir leik- og grunnskólar taka þátt í þróun verklagsins. Ekki er um tímabundið verkefni að ræða heldur breytta nálgun í þjónustu við börn og fjölskyldur hjá Hafnarfjarðarbæ.

Viðhorfskönnun var gerð í mars 2019 á meðal starfsfólks Brúarteyma þeirra leik- og grunnskóla sem voru í BRÚNNI og meðal foreldra þeirra barna sem höfðu fengið þjónustu í gegnum Brúarteymi. Niðurstöður sýndu að starfsfólk var almennt ánægt með skýrt verklag BRÚARINNAR og taldi að markviss samvinna og þjónusta frá fjölskyldu- og barnamálasviði og mennta- og lýðheilsusviði væri að nýtast vel fyrir börn og fjölskyldur þeirra sem þurfa á auknum stuðningi að halda. Þeir foreldrar sem svöruðu könnuninni töldu stuðninginn sem þeir fengu í gegnum Brúarteymin gagnast fjölskyldunni vel.

Til þess að óska eftir þjónustu brúarteymis er foreldrum bent á að hafa samband við umsjónarkennara eða skólastjórnendur þeirra skóla sem taka þátt í BRÚNNI.



Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is