Skólastarf hefst samkvæmt stundaskrá að páskaleyfi loknu þriðjudaginn 6. apríl kl. 10:10

31.3.2021

Ný reglugerð um skólahald grunnskóla kom út í dag og gildir eftir páska fram til 15. apríl. Reglugerðin færir þá niðurstöðu að grunnskólastarf hefst strax að páskaleyfi loknu, þriðjudaginn 6. apríl, líkt og í hefðbundnu skólaári.

ATH: Kennsla hefst þó ekki fyrr en í þriðju kennslustund eða kl. 10:10 þann dag.

Skólastarf er með hefðbundnu sniði, þ.e. full kennsla í öllum námsgreinum skv. stundaskrá (enn er þó beðið eftir samþykki fyrir því að opna megi sundlaugar fyrir grunnskólakennslu og verður staðfest eftir páska).

ATH: Þeir nemendur sem ættu að vera í sundi kl. 10:10 þennan dag eiga að mæta í heimastofur.

Engin grímuskylda er hjá nemendum þótt slíkt gildi fyrir starfsfólk í sameiginlegum rýmum og ef nánd við nemendur er minni en 2m við kennslu/samskipti.

Tónlistarkennsla fer fram í grunnskólum líkt og áður og starfsfólk skólaþjónustu má fara í grunnskóla en foreldrum og öðrum gestum er óheimilt að koma í skólana á fundi, með fræðslu eða á viðburði.

Starfsemi frístundaheimila er óbreytt en mögulega þarf í einhverjum tilvikum að takmarka stærð hópa svo þeir verði aldrei með fleiri en 50 börn sem reglugerðin miðar við sem hámarksfjölda nemenda saman í kennslu eða viðburðum innan skóla, utan sameiginlegra rýma eins og matsals og ganga.

Matarþjónusta verður óbreytt miðað við hefðbundna framkvæmd og hefst því með morgunávöxtum á þriðjudeginum í samræmi við áskriftir nemenda.

Varðandi leyfi fyrir nemendur, hvort heldur vegna veikinda eða annarra ástæðna, gilda sömu reglur og áður og engar sérstakar undanþágur eru í gildi vegna sóttvarnaáherslna.

Með von um gleðilega páska og bjartari stundir með vortímanum sem fram undan er.

Skrifstofa mennta- og lýðheilsusviðs Hafnarfjarðar.


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is