Stefna og leiðarljós skólans

Stefna Setbergsskóla

Setbergsskóli starfar eftir lögum um grunnskóla nr. 91/2008. Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á aukið sjálfstæði skóla, meiri sveigjanleika í skipulagi náms og kennslu, áhersla lögð á einstaklingsmiðaða kennslu og samfellu í námi á milli skólastiga. Þessar breytingar taka mið af þróun á skólastarfi á undanförnum árum eins og grunnskólalög  og aðalnámskrá bera með sér. Einnig tekur allt skólastarfið og stefnumótun mið af skólastefnu Hafnarfjarðar sem samþykkt var í bæjarráði árið 2009.

Áherslur í skólastarfinu hafa verið aukinn sveigjanleiki í námi, fjölbreyttari kennsluaðferðir, endurskoðun námsmats með áherslu á símat, leiðsagnargildi og endurspeglun á fjölbreyttum hæfileikum og getu hvers nemanda. Einnig hefur verið unnið að því að birta námsmat reglulega í námsmöppum og foreldrum þannig gert kleift að fylgjast reglulega með framvindu náms.

Setbergsskóli er forystuskóli í læsi og námsvitund. Lögð er áhersla á læsi í víðum skilningi með því að vinna með hugtök sem leið til aukins skilnings á öllum þeim viðfangsefnum sem nemendur fást við. Með því að vinna með námsvitund er lögð áhersla á að hver og einn geri sér grein fyrir hvaða aðferðir henti til náms.

Leiðarljós      

Starfsfólk skólans vill efla virðingu nemenda fyrir sjálfum sér, foreldrum og öðrum í umhverfinu og einnig fyrir eignum sínum og annarra. Við viljum að nemendur beri virðingu fyrir landinu, náttúrunni og umhverfinu sem við búum í. Með skólastarfinu viljum við auka víðsýni nemenda með því að veita þeim tækifæri til að afla sér þekkingar og leikni til að temja sér vinnubrögð sem stuðla að stöðugri viðleitni til menntunar og þroska. Með aukinni menntun eflum við skilning okkar á kjörum fólks, umhverfi, þjóðfélaginu, sögu þess, sérkennum og skyldum einstaklingsins við samfélagið. Skólastarfið miðar að því að leggja grundvöll að sjálfstæðri hugsun nemenda og þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Í samskiptum okkar innan sem utan skólans sýnum við vinsemd í verki, hverjum sem við mætum. Kjörorð skólans er „Mennt er máttur“.

Leitað var til allra sem koma að skólasamfélaginu eftir hugmyndum að leiðarljósum Setbergsskóla. Skólasamfélagið kom sér saman um að vinna eftir leiðarljósunum virðing, víðsýni og vinsemd. Lögð er áhersla á að skólastarfið endurspegli þessi leiðarljós. Á tuttugu ára afmæli skólans árið 2009 eignaðist skólinn skólasöng sem saminn var af Bjarna Arasyni. Textann samdi Ómar Óskarsson og hafði leiðarljósin í huga við textagerðina.

VIRÐING  - VÍÐSÝNI - VELLÍÐAN


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is