Saga skólans

Setbergsskóli tók til starfa haustið 1989 en þá var fyrsti áfangi skólans tekinn í notkun. Síðan hefur verið byggt við skólann fjórum sinnum. Arkitektarnir Björn Hall og Jón Þór Þorvaldsson teiknuðu skólann en húsnæðið. Merki skólans er teiknað af Sigurði Einarssyni, arkitekt. Rendurnar þrjár tákna setbergið sem er grunnur barnanna. Þau eru á mismunandi aldri, en sækja öll upp á við í þjóðfélaginu.

Fyrsta starfsár skólans voru 187 nemendur í 11 bekkjardeildum í 1. – 7. bekk en þegar fjölmennast var þá var 801 nemandi í 35 bekkjardeildum en það var skólaárið 2000 – 2001. Samtals störfuðu þá 56 kennarar við skólann. Síðan þá hefur nemendum fækkað og skólaárið 2016 – 2017 eru nemendur um 400 á aldrinum 6 – 15 ára. Bekkjardeildir eru 19. Í skólanum starfa nú um 40 kennarar auk skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, og tveggja deildastjóra. Við skólann starfa auk þess skólaliðar, stuðningsfulltrúar, náms- og starfsráðgjafi, bókasafnsfræðingur, þroskaþjálfar, sálfræðingur, skólaritari, hjúkrunarfræðingur auk umsjónarmanns skólahúsnæðis.

Í skólanum eru 23 almennar kennslustofur auk stofa fyrir list- og verkgreinakennslu, bókasafn og stofur fyrir tölvukennslu, sérkennslu og eðlis- og líffræðikennslu. Einnig er aðstaða fyrir unglinga, heilsugæslu og fjölnýtisalur þar sem íþróttir voru kenndar fyrstu árin. Fasteignafélag Hafnarfjarðar er rekstraraðili skólahúsnæðis.

Skólalóðin er mjög skemmtileg með leiksvæðum og gróðri og alltaf hefur lækurinn sem liðast um hana haft mikið aðdráttarafl. Stekkjarhraunið er hinum megin við lækinn með öllum þeim möguleikum sem það gefur til leikja og útikennslu.

Frá 1993 hefur skólinn haft mikil samskipti við leikskólana í hverfinu og gott samstarf er á milli skólastiganna. Árið 1997 fékk skólinn þróunarstyrk til að auka samstarf leik- og grunnskóla. Auk þess hefur skólinn verið í mjög góðu samstarfi við framhaldsskólastigið.

Árið 1991 fengu þrír starfsmenn Setbergsskóla styrk til að semja og staðfæra stærðfræðinámsefni. Þetta námsefni var gefið út af Námsgagnastofnun og er notað í fjölmörgum skólum landsins. Þetta eru svokallaðar stjörnubækur sem eru nefndar eftir reikistjörnunum. Skólinn hefur verið forystuskóli í læsi og námsvitund frá því haustið 2003.

Foreldrafélag hefur verið starfrækt frá 1990 og einnig foreldraráð en eftir lagabreytingar tók skólaráð til starfa árið 2008. Foreldrafélagið hefur beitt sér í ýmsum málum til hagsbóta fyrir skólann og þar með nemendur. Þar hafa ýmsir lagt gjörfa hönd á plóginn og má þar nefna stuðning við kaup á orðabókum, afmæli skólans, foreldrarölt, jólaföndur og ýmislegt fleira. Skólinn og foreldrafélagið hafa staðið fyrir námskeiðum fyrir foreldra nemenda í 1. og 8. bekkjum. Foreldrafélagið hefur einnig útbúið handbók fyrir foreldra þar sem fram koma gagnlegar upplýsingar um skólastarfið út frá sjónarhóli foreldra auk leiðbeininga um samskipti heimilis og skóla.

Skólaárið 2004 – 2005 var nemendum í fyrsta sinn boðið að kaupa heitan mat í hádeginu og gerði Hafnarfjarðarbær samning við SS um rekstur mötuneytis. Frá haustinu 2010 til vors 2016 sá fyrirtækið Skólamatur um rekstur mötuneytisins en frá hausti 2016 sér fyrirtækið Skólaaskur um mötuneytið og sér nemendum og starfsfólki fyrir heitum mat.

Íþróttahús var byggt við skólann og var það afhent í desember 2005. Þar er íþróttasalur, þrjár kennslustofur sem ÍTH hefur nú afnot af fyrir heilsdagsskóla sem börn í 1. – 4. bekk sækja. Þar er einnig fyrirlestrarsalur. Húsið er nýtt á kvöldin og um helgar af ÍBH. Unglingar sækja íþróttakennslu í Kaplakrika. Aðstaða til sundkennslu yngri nemenda er í sundlaug Lækjarskóla en eldri nemendur sækja skólasund í Suðurbæjarlaug.Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is