Starfsmannastefna Setbergsskóla

Lykillinn að velgengni skólastarfsins er mannauður skólans.  Mikilvægt er að við skólann starfi fjölbreyttur hópur starfsmanna sem býr yfir ólíkri reynslu og þekkingu.

Markmið starfsmannastefnu Setbergsskóla er að skólinn hafi ávallt á að skipa hæfum og áhugasömum starfsmönnum sem hafa frumkvæði, veita góða þjónustu og geta brugðist við síbreytilegum þörfum skjólstæðinga sinna.  Við hvetjum starfsfólk skólans til að axla ábyrgð, læra nýja hluti, koma með nýjar hugmyndir og reynum að virkja það besta sem í því býr.  Mikilvægt er að hver og einn leggi sitt af mörkum til að móta jákvæðan og góðan starfsanda og skapa sterka liðsheild. Stjórnendur og starfsfólk Setbergsskóla bera sameiginlega ábyrgð á því að sú þjónusta sem veitt er sé sem best á hverjum tíma og tryggt sé að langtímamarkmiðum sé náð.

Helstu áhersluatriði starfsmannastefnu skólans eru:

  • Að laða að skólanum  vel menntað og hæft starfsfólk.
  • Að starfið í skólanum grundvallist á virðingu, víðsýni og vellíðan.
  • Að tyggja starfsfólki góð starfsskilyrði, gefa því kost á fræðslu og endurmenntun til frekari þróunar í starfi.
  • Að hver og einn fái verkefni við hæfi og og nýti þannig hæfileika sína sem best.
  • Að starfsmenn séu virkjaðir til að móta og þróa starfsemina.
  • Að starfsmenn séu vel upplýstir um hlutverk þeirra og ábyrgð.
  • Að gagnkvæmt traust og gott samstarf ríki innan skólans.
  • Að fyrirbyggja deilur og auðvelda lausnir þeirra.
  • Að stjórnun skólans sé markviss og ákveðin.
  • Að samræma sem best kröfur starfs- og fjölskylduábyrgðar eins og kostur er.


Starfsmenn

Starfsmenn eiga að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Þeir eiga að vinna með öðrum starfsmönnum af heilindum að markmiðum þeim sem starfseminni eru sett. Þeim ber að hlýta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna. Þeim ber að virða trúnað um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og gæta ber trúnaðar um. Þessi þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi. Þeim ber að hafa í heiðri ráðvendni, heiðarleika og réttlætiskennd í störfum sínum. Æskilegt er að starfsmenn leggi rækt við eigin heilsu og ástundi heilbrigt líferni.

Stjórnendur

Stjórnendum ber að tileinka sér góða og nútímalega stjórnunarhætti. Þeir skulu hafa að leiðarljósi jákvætt viðhorf til starfsmanna sinna, virkt upplýsingastreymi og dreifingu á valdi og ábyrgð. Þeir bera ábyrgð á störfum starfsmanna sinna og eiga að vinna með þeim að þeim markmiðum sem sett hafa verið. Einnig eiga þeir að gera starfsmönnum kleift að taka framförum bæði faglega og sem einstaklingar. Stjórnendur skulu leitast við að hafa samráð við starfsmenn sína um málefni vinnustaðarins og beita sér fyrir sem víðtækastri sátt um þau. Stjórnendur eiga að vinna að þeim markmiðum sem sett eru hverju sinni.

Uppfært: 15.01.2021


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is