Netnotkun

Netnotkun - gaman og/eða alvara

Við í Setbergsskóla viljum leggja mikla áherslu á að foreldrar fylgist með hvað börnin þeirra aðhafast á netinu.  Borið hefur á að börn eru að leggja önnur börn í einelti á bloggsíðum sem þau eru aðilar að ásamt fleiri börnum og viljum við hvetja ykkur til að setjast niður með börnum ykkar og ræða um þess konar hluti, t.d. setjast niður saman og lesa síðuna um einelti á heimasíðu skólans, þar sem rætt er um einelti á netinu m.a.

Einnig er mikilvægt að þið fáið hjá börnum ykkar slóðirnar að síðunum þeirra, svo að þið vitið hvað þau eru að setja inn á netið, því mörg hver átta sig ekki á því að þessar síður eru opnar fyrir heiminn að sjá.  Þau eru stundum að setja inn heimilisfang, persónulega hluti, símanúmer og fleira sem ókunnugir eiga ekkert erindi að sjá.

Gott að er skoða einnig síðuna: http://www.saft.is, sem er heimasíða samtaka foreldra um ábyrga tölvunotkun, í þessu samhengi.

 Einnig þarf að benda á áhættur samskipta á msn.  Að auki við það að einelti þrífst einnig á þessum vettvangi, þá er að verða æ algengara að fullorðnir menn reyna að vinna sér traust barna með því að koma sér inn í vinahópa á msn, finna þannig einstakling sem er viðkvæmur fyrir og byggja upp samband og um leið traust barnsins með því að vera í stöðugu sambandi við það á msn. Þarf varla að nefna nýlegan dóm, þar sem maður var sakfelldur fyrir að draga á tálar og kynferðislega misnota unglingsstúlku, sem hann hafði komist í kynni við á msn.

Foreldrar geta fylgst með samskiptum á msn með því að fara inn í tölvuna og msn, fara þar efst í reitinn þar sem nafn barnsins er, velja options, þar til vinstri er valið messages og hakað í reitinn þar sem stendur "automatically keep a history of my conversations".

Með því að hafa þessa stillingu á, veitir það barninu aðhald varðandi hvað það segir við aðra og einnig verndar það gegn óviðeigandi áreiti annarra.


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is