• Vinalidar-LOGO

Vinaliðaverkefni

15.1.2021

Vinaliðaverkefni - gjöf frá foreldrafélagi Setbergsskóla

Setbergsskóli hóf þátttöku í Vinaliðaverkefninu haustið 2020 og hefur það vakið mikla lukku í skólanum. Foreldrafélag Setbergsskóla gaf nemendum skólans verkefnið við útskrift 10. bekkjar í vor og erum við mjög þakklát foreldrum fyrir að styðja við okkur við innleiðingu þess.

Markmið verkefnisins er að stuðla að fjölbreyttari leikjum í frímínútum, leggja grunn sem gerir nemendum kleift að tengjast sterkum vinaböndum, minnka togstreitu milli nemenda og að hampa góðum gildum, svo sem vináttu, vinsemd, virðingu og því að allir fái að taka þátt. Nemendur í 4. - 7. bekk völdu vinaliða í sínum bekkjum, þau klæðast gulum vestum á skólalóðinni og er hlutverk þeirra að skipuleggja og stýra leikjum í frímínútunum. Lögð er áhersla á að vinaliðar, sem valdir eru, sýni öðrum nemendum bæði vináttu og virðingu. Leikirnir eru í boði fyrir alla nemendur í 1. - 7. bekk. Gleðin leynir sér ekki á skólalóðinni og vinaliðarnir eru til fyrirmyndar í þessu frábæra hlutverki.



Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is