Utis Online - rafræn ráðstefna

Samstilltur hópur fagfólks í Setbergsskóla

2.10.2020

Rafræna menntaráðstefnan UtísOnline var haldin dagana 25. og 26. september 2020. Þátttaka starfsfólks Setbergsskóla var með eindæmum góð en 49 kennarar og annað fagfólk skólans tók þátt ásamt á annað þúsund skólafólks af landinu öllu. Í hópi fyrirlesara var valinn maður í hverju rúmi af fagfólki, víða að úr heiminum, með mikla reynslu og þekkingu af kennslu, skólaþróun og rannsóknum á sviði menntamála. Skipulag ráðstefnunnar var til fyrirmyndar og hefur Ingvi Hrannar Ómarsson guðfaðir UTís tekist að lyfta rafrænum ráðstefnum í hæstu hæðir. Undanfarandi ár hefur hann staðið fyrir UTís ráðstefnunni á Sauðárkróki um skólaþróun og upplýsingatækni í skólastarfi þar sem helstu frumkvöðlar á landinu hafa mætt til leiks.

Nemandinn í brennidepli var rauði þráðurinn í gegnum alla fyrirlestrana að þessu sinni. Fjallað var meðal annars um breytta kennsluhætti, líðan og valdeflingu nemenda, sköpun, forvitni, stafrænt læsi, sýndarveruleika og mikilvægi þessa að skapa umhverfi innan skólans þar sem ríkir öryggi og traust þar sem allir fá að njóta sín. Ef það tekst að þá þora nemendur og starfsfólk að fella þær grímur sem við erum gjörn á að setja upp á kostnað þess að vera einlæg og sýna öðrum hvað liggur að baki grímunni líkt og kom fram í fyrirlestri Ashanti Branch.

Báða dagana komum við saman hér í Setbergsskóla, hlýddum á erindin, hlýddum Víði og áttum virkar og skemmtilegar umræður í lok erinda bæði í net og raunheimum. Kraftur og áhugi íslensks skólafólks leyndi sér ekki í þessari veislu Ingva Hrannars og félaga og þökkum við honum og hans teymi fyrir frábært skipulag, fróðleik og skemmtun. 

https://www.utis.online/


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is