Stóra upplestrarkeppnin í Setbergsskóla

28.3.2022

Venjan er að halda undankeppni fyrir Stóru upplestrarkeppnina í hverjum bekk, þar sem allir nemendur taka þátt, og átta til tíu nemendur valdir til að lesa á sal skólans. Úr þeim hópi hafa svo fulltrúar skólans verið kosnir fyrir lokakeppnina í Víðistaðakirkju. Í ljósi þess hve margir nemendur höfðu verið frá vegna veikinda var ákveðið að gefa öllum tækifæri sem áhuga höfðu að taka þátt í keppninni á salnum. Þrettán nemendur úr árganginum ákváðu að taka þátt.

Stóra upplestrarkeppnin var haldin á sal skólans að morgni 10. mars í 26. skipti. Krakkarnir buðu sínu fólki á hátíðina, bekkjarfélögum og kennurum sem stutt hafa dyggilega við þau. Keppnin fór fram með miklum sóma, fallegum upplestri og hljóðfæraleik. Þrír dómarar fengu það erfiða verkefni að velja fulltrúa okkar í Stóru upplestrarkeppnina í Víðistaðakirkju. Vilhjálmur Haugsskon og Heiðrún Ingólfsdóttir voru valin sem okkar fulltrúar og Helena Sif Heiðarsdóttir sem varamaður ef annað hinna forfallaðist

Þessir nemendur fengu bókarverðlaun frá skólanum og sá sem hlaut fyrsta sætið fékk að auki farandgrip sem gefinn er í minningu Árna Ásbergs Alfreðssonar sem var nemandi hér við skólann. Hann var fæddur 19. nóvember 1991 en lést 14. september árið 2003 þá nemandi í 7. bekk. Árni hélt mikið upp á Harry Potter og er minningargripurinn hannaður í anda galdrastráksins af gullsmiðunum Siggu og Tímó.

Dómnefndin var skipuð Gunnari Birni Guðmundssyni leikstjóra, Tryggva Rafnssyni leikara og Sif Stefánsdóttur verkefnastjóra. Öll tengjast þau skólanum með einum eða öðrum hætti og fá þau bestu þakkir fyrir sín störf.

IMG_0313


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is