Stóra upplestrarkeppnin - forkeppni

12.3.2021

Stóra upplestrarkeppnin var nú haldin í 25. skipti og metnaður lesara alltaf verið jafn mikill. Í ár var ekki formleg setning á degi íslenskrar tungu 16. nóvember heldur hófu umsjónarkennararnir þær Margrét Stefánsdóttir og Sandra Lóa Gunnarsdóttir formlegan undirbúning í byrjun febrúar með því að velja texta og leiðsegja nemendunum varðandi upplestur og framkomu. Þær eiga hrós skilið fyrir þá vinnu sem og foreldrar/forráðamenn fyrir stuðning og hvatningu. Tíu nemendur voru valdir úr árganginum til að lesa á sal skólans og úr þeim hópi voru valdir tveir til að taka þátt í Stóru upplestrarkeppninni í Víðistaðakirkju. Það voru þær Rán Þórarinsdóttir og Lilja Dís Hjörleifsdóttir sem valdar voru sem fulltrúar okkar og Lilja Karitas Sigurðardóttir sem varamaður ef önnur hinna forfallaðist.

Þessir þrír nemendur fengu bókarverðlaun frá skólanum og sá sem hlaut fyrsta sætið fékk að auki farandgrip sem gefinn er í minningu Árna Ásbergs Alfreðssonar sem var nemandi hér við skólann. Hann var fæddur 19. nóvember 1991 en lést 14. september árið 2003 þá nemandi í 7. bekk. Árni hélt mikið upp á Harry Potter og er minningargripurinn hannaður í anda galdrastráksins af gullsmiðunum Siggu og Tímó.

Dómnefndin var skipuð Herdísi Snorradóttur grunnskólakennara, Tryggva Rafnssyni leikara og Gunnari Birni Guðmundssyni leikstjóra. Öll tengjast þau skólanum með einum eða öðrum hætti, við kennslu, verið nemandi og foreldri. Fá þau bestu þakkir fyrir sín störf. 

 


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is