Að vökva lestrarblómin í sumar

15.6.2020

Kæru foreldrar og forráðamenn !

Við viljum minna á mikilvægi þess að halda lestri barna ykkar áfram í sumarfríinu. Við höfum oft orðið vitni að því að lestrarfærni nemenda fari aftur eftir sumarfrí, ef þau lesa ekkert. Einkum er hætta á þessu þegar nemendur hafa glímt við lestrarerfiðleika eða eru hæg í lestri. Til að koma í veg fyrir þetta er einfalt ráð: Að börnin lesi að jafnaði ekki sjaldnar en þrisvar í viku í fríinu. Þannig viðhalda þau þeirri færni sem þegar er náð. Bóklestur eflir orðaforða og bætir málskilning og því mikilvægt að börn lesi til að „ hlaða“ inn góðan orðaforða.

Við hvetjum alla foreldra til að huga að því að lestrarblómin fái áfram næringu í sumarfríinu þannig að þau geti haldið áfram að vaxa og dafna. Notið ykkur frábæra þjónustu bókasafns Hafnarfjarðar ef ykkur skortir lesefni. Einnig er þar á dagskrá „sumarlestur“ sem við hvetjum ykkur til að nýta. Komum þeim boðum til barnanna okkar að það sé gaman að lesa skemmtilegar bækur og að lestrarstundir séu góðar samverustundir. Meðfylgjandi er umbunarkerfi fyrir lestur sem hægt er að nýta sem slíkt eða sem leið til að skrá niður lesturinn og halda sér þannig við efnið. Einnig er hægt að finna ýmislegt lestrarhvetjandi á netinu með því að slá inn „sumarlestur“ sem leitarorð. Margir nemendur fengu líka sumarlestrarblöð með sér heim á skólastlitum. Gangi ykkur vel !

Gleym-mer-ei

Með kærri sumarkveðju og ósk um góðar lestrarstundir í sumarfríinu,

starfsfólk Setbergsskóla


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is