Mat á lestri

Mat á lestri í 1. – 4. bekkjum Setbergsskóla

Ágætu foreldrar barna á yngsta stigi í Setbergsskóla

Við mat á lestri í 1.-4. bekkjum, notum við lestrarpróf sem kallast Leið til læsis. Lestrarprófin meta lesfimi nemenda og eru textar þeirra sniðnir að aldri þeirra. Úrvinnsla prófanna er rafræn og eru niðurstöður staðlaðar miðað við jafnaldra nemendanna á öllu landinu.

Hvað er lesfimi?

Lesfimi er hæfni barnsins til að lesa texta hratt, fyrirhafnarlaust og af skilningi. Að fylgjast með lesfimi barna er fljótleg og einföld leið til að sjá framfarir í lestri. Góð lesfimi byggist á því að nemandinn hafi náð góðum sjónrænum orðaforða.

Hvernig birtist vitnisburður?

Þegar vitnisburður birtist er tilgreindur fjöldi  lesinna orða á mínútu og jafnframt eru gefnar upplýsingar um stöðu nemandans miðað við námsmarkmið. Sem dæmi má nefna að nemandi gæti fengið umsögnina:

„ 60 rétt lesin orð á mínútu, sem er í meðallagi“.

Hver eru markmið með nýju matskerfi?


Markmiðin með matskerfinu eru að fylgjast með framförum og þróun lestrarfærni hjá nemendum. Því er hægt að grípa inn í með aðstoð við nemanda ef frávik koma í ljós.

Með kveðju, frá umsjónarkennurum yngstu bekkja og  læsisteymi Setbergsskóla


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is