Móttaka nemenda með sérþarfir

Í Setbergsskóla er í gildi áætlun um móttöku nýrra nemenda og móttökuáætlun fyrir nýbúa.

Sérkennsluþörf nemenda með sérþarfir í Setbergsskóla er metin með skimunum á námslegri stöðu, annaprófum, sérhæfðum prófum, prófunum sérfræðinga, mati umsjónarkennara og sérkennara. Einnig er þörfin metin út frá gögnum sem berast frá leikskólum eða þeim skóla sem nemandinn kemur úr. Nemendur sem falla undir viðmið um fatlanir fá sérkennslu eða stuðning eins og með þarf hverju sinni enda hafi greining á erfiðleikum eða fötlun farið fram af viðurkenndum aðilum.

Samfella milli leik- og grunnskóla:  Samvinna er milli leikskóla hverfisins og Setbergsskóla. Sú samvinna byggist á reglulegum heimsóknum verðandi grunnskólabarna úr leikskólunum og funda milli kennara í 1. bekk og leikskólakennara. Leikskólabörnin nýta sér jafnframt  aðstöðu Setbergsskóla á bókasafni og í íþróttahúsi vikulega. Að vori hittast sérkennslufulltrúi leikskóla, fulltrúi skólaskrifstofu, sérkennari 1. bekkja og skólastjórnandi. Á þessum fundi er farið yfir málefni einstakra nemenda sem eru að hefja nám að hausti. Á fundinum fær skólinn afhentar greiningar og önnur trúnaðargögn hvers barns með vitund foreldra. Sértækar upplýsingar um væntanlega nemendur eru skráðar í mentor upplýsingakerfið og farið með þær sem trúnaðarmál.

Skipulag sérkennslu/stuðnings: Skólastjórnendur skipuleggja sérkennslu í samráði við sérkennara. Þeir skipuleggja svo nánar tilhögun sérkennslunnar í samráði við umsjónarkennara. Sérkennsla getur verið í stuttan tíma eða út alla skólagöngu barnsins. Stefna skólans er að einstaklingsmiða námið. Sérkennslan fer fram innan bekkjar eða í sérkennslustofu eftir því hvað hentar nemendum best, ýmist í hópum eða einstaklingslega.  Sérkennari ber megin ábyrgð á kennslunni og vinnur náið með umsjónarkennara, foreldrum  og deildarstjóra.

Kennslan: Sérkennari skipuleggur og sér um kennsluna. Stuðningsfulltrúi eða þroskaþjálfi fylgir oft nemendum með sérþarfir í kennslustundum og vinna þeir undir leiðsögn sérkennara, umsjónarkennara eða stjórnenda eftir því sem við á. Stuðningsfulltrúi eða þroskaþjálfi fylgja nemendum með sérþarfir í sérgreinar eftir þörfum.

Einstaklingsmarkmið: Sérkennari ásamt deildastjórum gerir einstaklingsnámskrá fyrir nemendur. Einstaklingsnámskráin er unnin í samráði við umsjónarkennara og foreldra. Í námskránni koma fram markmið og leiðir í kennslu nemandans sem miðast við að efla færni hans. Einnig skal koma fram  hvernig námsmati er háttað, samvinna við foreldra og hvaða námsefni er unnið með. Námskráin telst ekki gild nema undirskrift foreldra liggi fyrir. Einstaklingsnámsskrár eru geymdar í sérstökum skjalaskáp sem hefur að geyma trúnaðarupplýsingar um nemendur. Þar á að vera hægt að skoða námsferil barnsins.

Hjálpartæki: Í hverju tilfelli fyrir sig er metið hvaða hjálpartæki gagnast fyrir nemenda, s.s. tölva, forrit og annar búnaður. Sérkennari þarf að vera ráðgefandi til foreldra varðandi t.d. forrit, hljóðbækur og annað sem kann að gagnast nemanda við nám og þjálfun. Ef mælt er með sérstökum búnaði er reynt að útvega hann í samráði við skólayfirvöld.

Samstarf við foreldra: Reglulegir teymisfundir eru haldnir þar sem umsjónarkennari, deildarstjóri og/eða skólastjórar, foreldrar og þjónustuaðilar utan skólans, þegar við á, hittast og fara yfir stöðu mála. Teymisfundi skal skrá í dagbók barnsins í mentor.  Fundargerð skal ávallt gera og setja í file barnsins.

Samstarf innan skólans: reglulega eru fundir um málefni einstakra nemenda (lausnateymi og nemendaverdarráðsfundir). Fundina sitja skólastjórar, deildastjórar, náms- og starfsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur, fulltrúi sérkennara og skólasálfræðingur. Á þeim fundum er farið yfir mál einstakra nemenda, þeim vísað til frekari úrvinnslu og úrræða leitað. Aðrir sérfræðingar og umsjónarkennarar eru kallaðir inn eftir þörfum.

Ráðgjöf og aðrir sérfræðingar:  Sérkennarar sjá um skimanir í 1. – 4. bekk.  Þá er skimað fyrir hugsanlegum mál eða lestrarerfiðleikum. Einnig er skimað fyrir lestrarerfiðleikum í 9. bekk.  Önnur prófgögn og þau algengustu eru Logos lestrarhæfnisprófið og Told málþroskaprófin. Sérkennari leggur þau fyrir og skilar af sér niðurstöðum á skilafundi með foreldrum og viðkomandi kennurum. Þeir veita einnig ráðgjöf til foreldra og kennara varðandi hamlanir og styrkleika barnsins. Hægt er að vísa í nánari greiningu til sérfræðinga á vegum skólaskrifstofu Hafnarfjarðar. Þá eru fyllt út sérstök eyðublöð í samráði við foreldra og umsjónarkennara. Skólastjórar og/eða deildastjórar sjá um að eyðublöð séu rétt út fyllt og fylgja málum eftir í nemendaverdarráði. Þegar greining liggur fyrir eru haldnir skilafundir með þeim aðilum sem að barninu koma, ásamt foreldrum. Skýrsla er lögð fram og skráð í mentor og geymd í skrá barnsins. Oft er nauðsynlegt að leita til ráðgjafa Sjónstöðvar, Heyrna- og talmeinastöðvar, Greiningarstöðvar og Barna- og unglinga geðdeildar. Skólastjórar og/eða deildastjórar eru milliliður. Greiningar og skýrslur skal skrá í mentor. Skilafundi skal skrá í dagbók barnsins í mentor. Fundargerð skal ávallt gera á skilafundum og skrá þar ákvarðanir um úrræði og úrvinnslu. Fundargerð ská geyma í skrá barns.

Félagsleg þátttaka: Skólinn er SMT skóli og vinnur samkvæmt því. Umsjónarkennarar eru vakandi hverju sinni yfir félagslegum tengslum nemenda. Tengiliðir foreldra í hverjum bekk sjá um félagsleg samskipti utan skólatíma nokkrum sinnum á ári. Nemendur sem standa höllum fæti félagslega er liðsinnt um vinatengsl t.d með viðtölum við náms- og starfsráðgjafa.  Gerðar eru reglulegar tengslakannanir í bekkjum. Eineltisteymi er virkjað í málum barna sem eru einangruð eða eru talin lögð í einelti. Skólakort eru nýtt í félagsfærniþjálfun, auk námsefnis eins og vinum Zippýs. Reglulegir fundir með foreldrum og ráðgjöf til þeirra, stuðla einnig að því að barn nái að fóta sig félagslega. Önnur félagstengsl utan skóla er í höndum foreldra hvers barns.


Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is