SMT - skólaleikur / 100 miða leikurinn

29.2.2016

Nú er „100 miða leikurinn“ að fara af stað hér í skólanum. SMT-teymi skólans sér um leikinn og er tilgangur hans að hvetja nemendur til að fara eftir skólareglunum sem eru byggðar á SMT-hugmyndafræðinni og að minna okkur öll á mikilvægi þess að nota jákvæða umbun. Nemendur leggja sig fram um að sýna fyrirmyndarframkomu í skólanum og við það skapast góður skólabragur.

100 miða leikurinn er ekkert ósvipaður bingói þar sem allir eru með. Hann gengur út á að 10 nemendur á dag fá sérmerktan geisla sem starfsmenn skólans gefa á almennum svæðum, t.d. á göngum og í matsal. Miðarnir eru settir á númeraspjald með 100 reitum. Þegar 10 dagar eru liðnir og 100 nemendur hafa fengið sérmerktan geisla er númeraspjaldið fullt og þá er kunngjört hvaða röð vinnur og hvað er í vinning.

Í hvert sinn er nemandi fær sérmerktan geisla er póstur sendur heim. Í leikslok verður hringt heim til vinningshafanna 10 sem voru í vinningsröðinni. Leikurinn stendur frá 29. febrúar til 11. mars og verður vonandi öllum til ánægju og skemmtunar.  



Setbergsskóli | Hlíðarbergi 2, 220 Hafnarfjörður
Sími 565 - 1011 | Netfang setbergsskoli@setbergsskoli.is